Eigi þreytast að biðja
1 Þá sagði Jesús þeim dæmisögu um það hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: 2 „Í borg einni var dómari sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. 3 Í sömu borg var ekkja sem kom einlægt til hans og sagði: Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum. 4 Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. 5 En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar áður en hún gerir út af við mig með nauði sínu.“
6 Og Drottinn mælti: „Heyrið hvað rangláti dómarinn segir. 7 Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? 8 Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu þegar hann kemur?“
Farísei og tollheimtumaður
9 Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: 10„Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
11 Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. 12 Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.
13 En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! 14 Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð,[hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“
Leyfið börnunum að koma til mín
15 Menn færðu og til hans ungbörnin svo að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá. 16 En Jesús kallaði þau til sín og mælti: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. 17Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“