Vinir okkar í Hinu danska Biblíufélagi vinna um þessar mundir að afar spennandi verkefni, hér segir frá því:

 

 

Verkefnið „Skólinn minn“, sem Danir eiga veg og vanda að, felst í því að senda beint frá kennslu til flóttamannabúða og út til margra þúsunda barna á hverjum einasta degi.

Skólinn minn sendir kennsluþætti á SAT-7 KIDS, þar sem börn læra að lesa, skrifa og reikna. Þar er einnig lögð áhersla á umburðarlyndi og skilning á öðrum trúarsamfélögum, þannig að börnin læra að vinna saman þvert á menningarheima. Framkvæmdastjóri SAT-7, Rita El-Mounayer, greinir frá því hvernig verkefnið hefur allt frá upphafi gefið sig að þeim milljónum flóttabarna, sem dvelja í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku:

„Það að komast í skóla er algjör draumur fyrir þessi börn, sem lifa afskekkt og hvorki njóta skólagöngu né eiga heimaland. Af þeim sökum könnuðum við hvernig við gætum látið okkar af hendi rakna og lagt grunninn að því að börnin gætu menntað sig síðar og tekið þátt í samfélaginu. Þá fékk Synne (Synne Garff, framkvæmdastjóri alþjóðadeildarinnar í Danmörku) hugmyndina um Skólann minn; að senda námsefni beint til barnanna í gegnum hin fjölmörgu loftnet flóttamannabúðanna. Og nú hefur það ræst — og byrjunin lofar góðu.“

„Það að komast í skóla er algjör draumur fyrir þessi börn, sem lifa afskekkt og njóta hvorki skólagöngu né eiga heimaland.“

 

Mæður líta við

Kennslan fylgir mjög sérhæfðri námskrá, en hún er eins formföst og hægt er. „Börnin læra sannarlega eitthvað! Þættirnir eru sniðnir að börnunum, en við fáum einnig viðbrögð frá mæðrunum, sem líta við. Nokkrar þeirra skrifa okkur og segja okkur frá því, hversu frábært það sé, að nú læra þær frönsku, eða að þær læra að lesa eða skrifa. Þetta kom okkur á óvart, á afar jákvæðan hátt.“

Rita El-Mounayer tekur skýrt fram, að Skólinn minn hefur það ekki beinlínis á stefnuskrá sinni að stunda trúboð. „Við viljum fyrst og fremst hjálpa samfélaginu. Við höfum ekkert annað á stefnuskránni en menntun. Vissulega er sent út á kristinni sjónvarpsrás og við förum heldur ekki dult með það. En það er ekki meginatriðið.“

„Ef unga fólkið stendur uppi 3-4 árum síðar án menntunar, atvinnu og framtíðar, þá eigum við það á hættu að það verði auðveldlega öfgahyggju að bráð.“

 

Miklar hugsjónir fyrir framtíðina

Rita El-Mounayer vill gjarnan byggja enn frekar á velgengninni og gera fleiri börnum kleift að stunda Skólann minn: „Hvers vegna að hætta í 5. bekk? Við eigum líka að ná til svolítið eldri hóps. 14 til 15 ára er sérstaklega tvísýnn aldur. Það er hið besta mál, að börnin læri að lesa og skrifa við 11 ára aldur, en ef þau standa uppi 3-4 árum síðar án menntunar, atvinnu og framtíðar, þá eigum við það á hættu  að þau verði auðveldlega öfgahyggju að bráð.

Þess vegna vinnum við einnig að því að fræðsluþættir okkar hljóti formlega viðurkenningu, þannig að börnin, sem hafa séð þættina og lært af þeim, geti síðar gengið í skóla, tekið próf og fengið skírteini. Sá er draumur okkar — og mikilvægt markmið. Ef við getum sáð fræi hjá þessum börnum, sem með hjálp Heilags anda getur vaxið og orðið sterk planta, já, þá geta þau með tímanum breytt miklu til góðs fyrir allt svæðið,“ segir Rita El-Mounayer að lokum.

        –    –    –

Texti: Thomas Godsk Larsen
Þýðing: Þorgils Hlynur Þorbergsson