Innra með yður

20 Farísear spurðu Jesú hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: „Guðs ríki kemur ekki þannig að á því beri. 21 Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það því að Guðs ríki er innra með yður.“[

Er Mannssonurinn opinberast

22 Og Jesús sagði við lærisveinana: „Þeir dagar munu koma að þér þráið að sjá einn dag Mannssonarins og munuð eigi sjá hann. 23 Menn munu segja við yður: Sjá hér, sjá þar. En farið ekki og hlaupið eftir því. 24Mannssonurinn kemur eins og elding sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars. 25 En fyrst á hann margt að líða og þessi kynslóð mun útskúfa honum.
26 Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins: 27 Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags er Nói gekk í örkina og flóðið kom og tortímdi öllum. 28 Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu. 29 En daginn sem Lot fór úr Sódómu rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum. 30 Eins mun verða á þeim degi er Mannssonurinn opinberast.
31 Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri skal ekki heldur hverfa aftur. 32 Minnist konu Lots. 33 Sá sem vill sjá lífi sínu borgið mun týna því en sá sem týnir því mun öðlast líf. 34 Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. 35 Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. [ 36 Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.]“[
37 Þeir spurðu hann þá: „Hvar, herra?“
En hann sagði við þá: „Þar munu ernirnir safnast sem hræið er.“