Vei þeim er veldur

1 Jesús sagði við lærisveina sína: „Eigi verður umflúið að menn séu tældir til falls en vei þeim sem því veldur. 2Betra væri honum að hafa mylnustein um hálsinn og vera varpað í hafið en að tæla einn af þessum smælingjum til falls.

Fyrirgefning

3 Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann og ef hann sér að sér, þá fyrirgef honum. 4 Og þótt hann misgeri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: Ég iðrast, þá skalt þú fyrirgefa honum.“

Trú

5 Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“
6 En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.

Þjónusta

7 Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? 8 Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. 9 Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? 10 Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“

Hvar eru hinir níu?

11 Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. 12 Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, 13 hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
14 Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.[ 15 En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. 16 Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. 17 Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? 18 Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ 19 Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“