15 Það sem ósagt er af sögu Jóasar, verkum hans, afrekum og hernaði gegn Amasía er skráð í annála Ísraelskonunga.
16 Jóas var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn í Samaríu hjá konungum Ísraels. Jeróbóam, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Amasía deyr

17 Amasía Jóasson Júdakonungur lifði í fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs. 18 Það sem ósagt er af sögu Amasía er skráð í annála Júdakonunga.
19 Í Jerúsalem var gert samsæri gegn Amasía svo að hann flýði til Lakís, menn voru sendir á eftir honum til Lakís og þar drápu þeir hann. 20 Hann var fluttur á hestum til Jerúsalem og grafinn þar hjá feðrum sínum í borg Davíðs. 21 Því næst sóttu allir Júdamenn Asaría, sem þá var sextán ára, og gerðu hann að konungi eftir Amasía föður sinn. 22 Hann víggirti Elat og lagði aftur undir Júda. Hafði Amasía konungur þá verið lagður til hvíldar hjá feðrum sínum.

Jeróbóam II Ísraelskonungur

23 Á fimmtánda stjórnarári Amasía Jóassonar Júdakonungs varð Jeróbóam Jóasson konungur yfir Ísrael og ríkti fjörutíu og eitt ár í Samaríu. 24 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af að drýgja þær syndir sem Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael til að drýgja. 25 Hann vann aftur landsvæði Ísraels frá Lebo Hamat til Arabavatnsins[ samkvæmt orði Drottins, Guðs Ísraels, sem hann flutti fyrir munn þjóns síns, Jónasar spámanns Amittaísonar frá Gat Hefer.
26 Drottinn hafði séð bitra neyð Ísraels. Bæði skorti þræla og frjálsa menn og enginn gat bjargað Ísrael. 27 En Drottinn hafði ekki sagt að hann ætlaði að afmá nafn Ísraels af jörðinni og lét Jeróbóam Jóasson bjarga Ísraelsmönnum.
28 Það sem ósagt er af sögu Jeróbóams, verkum hans og afrekum, hernaði hans og hvernig hann lagði Damaskus og Hamat aftur undir Ísrael er skráð í annála Ísraelskonunga. 29 Jeróbóam var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum, Ísraelskonungum. Sakaría, sonur hans, varð konungur eftir hann.