Jóas Ísraelskonungur

10 Á þrítugasta og sjöunda stjórnarári Jóasar Júdakonungs varð Jóas Jóahasson konungur yfir Ísrael. Hann ríkti sextán ár í Samaríu.
11 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann sneri ekki baki við neinum þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson drýgði og kom Ísrael til að drýgja heldur hélt áfram að drýgja þær. 12 Það sem ósagt er af sögu Jóasar, verkum hans og afrekum og frásögnum af því þegar hann barðist gegn Amasía, konungi Júda, er skráð í annála Ísraelskonunga. 13 Jóas var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum en Jeróbóam settist í hásæti hans. Jóas var grafinn í Samaríu hjá konungum Ísraels.

Elísa deyr

14 Þegar Elísa veiktist af þeim sjúkdómi sem dró hann til dauða vitjaði Jóas Ísraelskonungur hans, brast í grát frammi fyrir honum og sagði: „Faðir minn, faðir minn, þú stríðsvagn Ísraels og vagnstjóri hans.“ 15 „Taktu boga og örvar,“ svaraði Elísa honum. Og hann tók boga og örvar. 16 Þá sagði hann við Ísraelskonung: „Leggðu hönd þína á bogann.“ Hann gerði það og Elísa lagði hendur sínar á hendur konungs. 17 Síðan sagði hann: „Opnaðu gluggann sem snýr í austur.“ Konungur opnaði gluggann. „Skjóttu,“ skipaði Elísa og hann skaut. Þá sagði Elísa: „Þetta er sigurör frá Drottni og sigurör gegn Aram. Þú munt gersigra Aram við Afek.“ 18 Síðan sagði hann: „Taktu örvarnar.“ Konungur tók þær. Þá sagði hann við Ísraelskonung: „Sláðu á jörðina.“ Hann sló þrisvar en hætti síðan. 19 Þá reiddist guðsmaðurinn honum og sagði: „Hefðir þú slegið fimm eða sex sinnum hefðir þú gersigrað Aram. En nú muntu aðeins sigra þá þrisvar.“
20 Elísa dó og var grafinn. Ræningjaflokkar frá Móab komu jafnan inn í landið við árslok. 21 Eitt sinn bar svo við að nokkrir menn, sem voru að greftra mann, sáu einn þessara ræningjaflokka. Þeir fleygðu þá manninum í gröf Elísa og þegar hann snerti bein Elísa lifnaði hann og stóð á fætur.

Sigur unninn á Aram

22 Hasael Aramskonungur þjakaði Ísrael á meðan Jóahas lifði. 23 En Drottinn var náðugur, sýndi þeim miskunn og sneri sér til þeirra vegna sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. Hann vildi ekki eyða þeim og hafði ekki enn hrakið þá frá augliti sínu. 24 Þegar Hasael Aramskonungur dó varð Benhadad, sonur hans, konungur eftir hann. 25 Þá gat Jóas Jóahasson náð borgunum aftur undan stjórn Benhadads Hasaelssonar sem Hasael hafði tekið með áhlaupi frá Jóahas föður hans. Jóas sigraði hann þrisvar og tók aftur borgir Ísraels.