Jóahas Ísraelskonungur

1 Á tuttugasta og þriðja stjórnarári Jóasar Ahasíasonar, konungs í Júda, varð Jóahas Jehúson konungur yfir Ísrael. Hann ríkti sautján ár í Samaríu.
2 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann drýgði sömu syndir og Jeróbóam Nebatsson hafði komið Ísrael til að drýgja og lét ekki af því. 3 Þess vegna blossaði reiði Drottins upp gegn Ísrael svo að hann seldi þá í hendur Hasael Aramskonungi og í hendur Benhadad Hasaelssyni í langan tíma.
4 Jóahas bað til Drottins og Drottinn bænheyrði hann. Hann hafði séð neyð Ísraels þegar Aramskonungur þrengdi að þeim. 5 Drottinn sendi þá Ísraelsmönnum frelsara svo að þeir losnuðu undan valdi Arams og gátu aftur búið í tjöldum sínum. 6 Samt sneru þeir ekki baki við synd ættar Jeróbóams sem hann kom Ísrael til að drýgja. Þeir héldu áfram að syndga og meira að segja stóð Asérustólpi áfram í Samaríu. 7 Jóahas átti ekkert eftir af liði sínu nema fimmtíu vagnliðsmenn, tíu stríðsvagna og tíu þúsund fótgönguliða því að Aramskonungur hafði eytt öðru liði hans og farið með það eins og ryk sem gengið er á.
8 Það sem ósagt er af sögu Jóahasar, verkum hans og afrekum er skráð í annála Ísraelskonunga. 9 Jóahas var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Hann var grafinn í Samaríu. Jóas sonur hans varð konungur eftir hann.