15 Þegar Jehú hélt áfram þaðan mætti hann Jónadab Rekabssyni sem hafði komið til móts við hann. Jehú heilsaði honum og sagði við hann: „Ert þú jafneinlægur við mig og ég er við þig?“ Þegar Jónadab játaði því sagði Jehú: „Ef svo er réttu mér þá hönd þína.“ Hann rétti honum hönd sína og Jehú lét hann stíga upp í vagninn til sín 16 og sagði: „Komdu með mér og sjáðu hvernig ég legg mig fram af brennandi ákafa vegna málefnis Drottins.“ Síðan lét hann Jónadab aka með sér í vagni sínum. 17 Þegar Jehú kom til Samaríu lét hann drepa alla sem eftir voru af ætt Akabs í Samaríu. Þeim var tortímt í samræmi við það orð sem Drottinn hafði flutt Elía.
Prestum Baals tortímt
18 Því næst safnaði Jehú öllu fólkinu saman og ávarpaði það: „Akab dýrkaði Baal slælega, Jehú mun dýrka hann betur. 19 Kallið til mín alla spámenn Baals, alla dýrkendur hans og presta. Engan má vanta því að ég ætla að halda Baal mikla fórnarveislu. Hver sá sem ekki kemur skal týna lífi.“ En Jehú beitti brögðum af því að hann ætlaði að tortíma öllum þeim sem dýrkuðu Baal. 20 Þessu næst sagði Jehú: „Boðið hátíð Baal til heiðurs,“ og það var gert. 21 Þá sendi Jehú boð um allt Ísraelsland. Allir dýrkendur Baals komu, enginn lét sig vanta. Þeir gengu í hús Baals svo að það fylltist enda á milli. 22 Jehú sagði þá við yfirmann klæðaherbergisins: „Taktu fram klæðnaði handa öllum dýrkendum Baals,“ og hann tók fram klæðnaði handa þeim. 23 Síðan gengu Jehú og Jónadab Rekabsson í hús Baals. Jehú sagði við dýrkendur Baals: „Leitið af ykkur allan grun um að hér sé enginn af dýrkendum Drottins meðal ykkar því að hér mega aðeins dýrkendur Baals vera.“ 24 Þeir fóru síðan inn til að færa sláturfórnir og brennifórnir.
Jehú fylkti áttatíu mönnum utan dyra og sagði við þá: „Hver sem lætur nokkurn komast undan af þeim mönnum sem ég fæ ykkur í hendur skal gjalda fyrir líf hans með lífi sínu.“ Þegar Jehú hafði lokið við að færa brennifórnina kallaði hann til varðanna og foringja þeirra: „Komið inn og höggvið þá niður. Látið engan sleppa.“ 25 Verðirnir og foringjar þeirra hjuggu þá síðan niður með sverðum og fleygðu þeim svo út. Síðan fóru þeir inn í innsta herbergið í húsi Baals 26 og fóru út með merkistein húss Baals og brenndu hann. 27 Þeir brutu merkistein Baals og síðan rifu þeir hús Baals niður og gerðu úr því náðhús og svo hefur verið til þessa dags. 28 Þannig útrýmdi Jehú Baal úr Ísrael. 29 Samt sneri hann ekki baki við syndum Jeróbóams Nebatssonar sem hafði tælt Ísrael til að dýrka gullkálfana í Betel og Dan.
Jehú deyr
30 Drottinn sagði við Jehú: „Af því að þú hefur gert það sem rétt er í augum mínum og hefur farið með ætt Akabs í öllu að vilja mínum skulu synir þínir sitja á hásæti Ísraels í fjóra ættliði.“ 31 En Jehú gætti þess ekki að fylgja lögmáli Drottins, Guðs Ísraels, af heilum huga. Hann sneri ekki baki við syndum þeim sem Jeróbóam hafði komið Ísrael til að drýgja.
32 Um þessar mundir tók Drottinn að skerða landsvæði Ísraels. Hasael sigraði Ísraelsmenn á öllum landsvæðunum 33 austan Jórdanar. Hann vann allt land ættbálkanna Gíleaðs, Gaðs, Rúbens og Manasse, allt frá Aróer, sem er við Arnondalinn, bæði Gíleað og Basam.
34 Það sem ósagt er af sögu Jehú og afrekum hans er skráð í annála Ísraelskonunga. 35 Jehú var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn í Samaríu. Jóahas, sonur hans, varð konungur eftir hann. 36 Jehú ríkti í Samaríu sem konungur yfir Ísrael tuttugu og átta ár.