Endalok Akabsættar

1 Akab átti sjötíu syni í Samaríu. Jehú skrifaði nú bréf og sendi það til Samaríu, til höfðingjanna í Jesreel, til öldunganna og þeirra sem fóstruðu syni Akabs. Bréfið var á þessa leið: 2 „Nú þegar þið fáið þetta bréf eru synir húsbónda ykkar hjá ykkur. Þið ráðið yfir vögnum, hestum, víggirtum borgum og vopnum. 3 Veljið þann besta og hæfasta af sonum húsbónda ykkar og setjið hann í hásæti föður síns. Berjist síðan fyrir ætt húsbónda ykkar.“
4 Þeir urðu mjög hræddir og sögðu: „Fyrst tveir konungar gátu ekki varist honum, hvernig ættum við þá að geta það?“ 5 Hallarráðsmaðurinn, herforingi borgarinnar, öldungarnir og fóstrarnir sendu því þessi boð til Jehú: „Við erum þjónar þínir og munum hlýða þér í einu og öllu. Við tökum engan til konungs. Gerðu hvað sem þú vilt.“
6 Þá skrifaði hann annað bréf til þeirra og var það á þessa leið: „Ef þið standið með mér og hlýðið skipunum mínum takið þá höfuð sona húsbónda ykkar og komið til mín í Jesreel um sama leyti á morgun.“ En konungssynirnir sjötíu voru hjá höfðingjum borgarinnar sem ólu þá upp. 7 Um leið og þeir höfðu fengið bréfið hjuggu þeir konungssynina sjötíu, settu höfuð þeirra í körfur og sendu þær til Jehú í Jesreel. 8 Sendiboði kom og sagði: „Höfuð konungssonanna hafa verið flutt hingað.“ Hann svaraði: „Setjið þau í tvær hrúgur í borgarhliðinu til morguns.“
9 Morguninn eftir gekk Jehú út, tók sér stöðu og ávarpaði allt fólkið með þessum orðum: „Þið eruð saklaus. Það er ég sem hef gert samsæri gegn húsbónda mínum og drepið hann. En hver hefur drepið alla þessa? 10 Nú verðið þið að viðurkenna að ekkert af orðum Drottins, sem hann mælti gegn ætt Akabs, hefur fallið til jarðar. Drottinn hefur framkvæmt það sem hann boðaði fyrir munn Elía, þjóns síns.“ 11 Síðan lét Jehú drepa alla ættingja Akabs sem eftir voru í Jesreel, sömuleiðis alla höfðingja hans, trúnaðarmenn og presta. Enginn komst undan.
12 Síðan lagði hann af stað og hélt til Samaríu.[ Þegar hann var á leiðinni og var kominn til Bet Eked Haroím[13 mætti hann bræðrum Ahasía Júdakonungs. „Hverjir eruð þið?“ spurði hann og þeir svöruðu: „Við erum bræður Ahasía. Við erum á leiðinni til að heimsækja konungssynina og syni konungsmóðurinnar.“ 14 Þá skipaði hann: „Grípið þá lifandi.“ Þeir gripu þá lifandi og drápu þá síðan við brunninn í Bet Eked. Þeir voru fjörutíu og tveir og lét hann engan þeirra lífi halda.