14 Þannig gerði Jehú Jósafatsson Nimsísonar samsæri gegn Jóram. En Jóram hafði varist við Ramót í Gíleað ásamt öllum Ísrael gegn Hasael Aramskonungi. 15 Jóram konungur hafði snúið heim til Jesreel þar sem hann ætlaði að láta sár sín gróa sem Aramearnir höfðu veitt honum þegar hann barðist gegn Hasael, konungi Arams.
„Ef þið eruð mér sammála,“ sagði Jehú, „sjáið þá til þess að enginn sleppi út úr borginni til að segja frá þessu í Jesreel.“ 16 Síðan steig Jehú upp í vagn og hélt til Jesreel. Þar lá Jóram sjúkur og Ahasía Júdakonungur var kominn niður eftir til að heimsækja hann.
17 Þegar vörðurinn, sem stóð í turninum í Jesreel, sá flokk Jehú koma hrópaði hann: „Ég sé hóp manna.“ Þá sagði Jóram: „Náðu í riddara og sendu til móts við hann til að spyrja hvort þeir fari með friði.“ 18 Riddari nokkur reið þá á móti þeim og hrópaði: „Svo segir konungurinn: Komið þið með friði?“ Jehú svaraði: „Hvað kemur þér það við hvort við komum með friði? Farðu í fylkinguna fyrir aftan mig.“ Þá sagði vörðurinn: „Sendimaðurinn er kominn til þeirra en snýr ekki aftur.“ 19 Síðan sendi konungur annan riddara. Hann kom til þeirra og hrópaði: „Svo segir konungurinn: Komið þið með friði?“ Jehú svaraði: „Hvað kemur þér það við hvort við komum með friði? Farðu í fylkinguna fyrir aftan mig.“ 20 Þá sagði vörðurinn: „Hann er kominn til þeirra en hann snýr ekki aftur. Ökulagið er eins og hjá Jehú Nimsísyni því að hann ekur eins og vitlaus maður.“
21 „Spennið fyrir,“ sagði Jóram. Var þá spennt fyrir vagn hans. Jóram Ísraelskonungur og Ahasía Júdakonungur óku nú hvor í sínum vagni til móts við Jehú og mættu honum við akur Nabóts frá Jesreel. 22 Þegar Jóram kom auga á Jehú sagði hann: „Kemur þú með friði, Jehú?“ Hann svaraði: „Hvernig get ég komið með friði á meðan Jesebel, móðir þín, hórast með hjáguðum og leggur stund á alls konar galdra?“ 23 Jóram sneri frá, lagði á flótta og hrópaði um leið til Ahasía: „Svik, Ahasía.“ 24 En Jehú greip bogann og skaut Jóram milli herðablaðanna svo að örin gekk gegnum hjartað og hann hné niður í vagni sínum. 25 Jehú sagði þá við Bídkar, aðstoðarmann sinn: „Taktu hann og fleygðu honum á akur Nabóts frá Jesreel. Minnstu þess að við, ég og þú, ókum með tvíeykjum okkar á eftir Akab, föður hans, þegar Drottinn lét kveða upp þennan dóm yfir honum: 26 Víst sá ég blóð Nabóts og sona hans í gær, segir Drottinn. Á þessum akri mun ég launa þér, segir Drottinn. Fleygðu honum nú á akurinn í samræmi við orð Drottins.“
27 Þegar Ahasía, konungur Júda, sá þetta flýði hann í áttina til Bet-Hagan.[ Jehú elti hann og hrópaði: „Höggvið hann líka.“ Þeir komu á hann höggi á veginum upp til Gúr sem er við Jibleam en honum tókst að flýja til Megiddó þar sem hann lét lífið. 28 Þjónar hans fluttu hann til Jerúsalem og lögðu hann í gröf hjá feðrum hans í borg Davíðs. 29 Ahasía varð konungur yfir Júda á ellefta stjórnarári Jórams Akabssonar.

Jesebel deyr

30 Þegar Jesebel frétti að Jehú væri kominn til Jesreel málaði hún sig kringum augun, skreytti höfuð sitt og horfði út um gluggann. 31 Hún hrópaði þegar Jehú var kominn gegnum borgarhliðið: „Hvernig líður Simrí, morðingja húsbónda síns?“ 32 Hann leit upp í gluggann og spurði: „Hver styður mig, hver?“ Tveir eða þrír hirðmenn litu þá út um gluggann 33 og hann hrópaði til þeirra: „Fleygið henni niður.“ Þeir fleygðu henni þá niður og blóðið úr henni slettist á múrvegginn og hestana þegar þeir tröðkuðu á henni.
34 Jehú gekk síðan inn. Er hann hafði etið og drukkið sagði hann við þjóna sína: „Hirðið um þessa bölvuðu kvensnift og grafið hana því að hún var þrátt fyrir allt konungsdóttir.“ 35 En þegar þeir fóru til þess að grafa hana fundu þeir ekki annað af henni en hauskúpuna, fæturna og hendurnar. 36 Þeir sneru þá aftur og sögðu frá þessu en Jehú sagði: „Það var þetta sem Drottinn sagði fyrir munn þjóns síns, Elía frá Tisbe: Hundar skulu éta Jesebel á landi Jesreelborgar. 37 Lík Jesebelar skal liggja á landi Jesreelborgar eins og tað á túni og enginn skal geta sagt: Þetta er Jesebel.“