Jehú smurður til konungs

1 Einu sinni kallaði spámaðurinn Elísa á einn af lærisveinum spámannanna og sagði við hann: „Bind upp kyrtil þinn, tak þessa olíukrús með þér og far til Ramót í Gíleað. 2 Þegar þú kemur þangað skaltu leita uppi Jehú Jósafatsson Nimsísonar. 3 Gakk síðan til hans og bið hann standa upp frá félögum sínum og far með hann inn í innsta herbergið. Síðan skaltu taka olíukrúsina og hella olíunni yfir höfuð hans og segja: Svo segir Drottinn: Ég smyr þig hér með til konungs yfir Ísrael. Því næst skaltu opna dyrnar og fara tafarlaust á brott.“
4 Lærisveinn spámannsins hélt síðan til Ramót í Gíleað. 5 Þegar hann kom þangað gekk hann fram á herforingjana þar sem þeir sátu og sagði: „Ég er með orðsendingu til þín, hershöfðingi.“ „Til hvers okkar?“ spurði Jehú. En hann svaraði: „Til þín, hershöfðingi.“ 6 Jehú stóð þá upp og gekk inn í húsið og lærisveinn spámannsins[ hellti olíu yfir höfuð honum og sagði við hann: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég smyr þig til konungs yfir lýð Drottins, yfir Ísrael. 7 Þú átt að eyða ætt Akabs, húsbónda þíns, svo að ég komi fram hefndum fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og blóð allra þjóna Drottins sem Jesebel hefur úthellt. 8 Öll ætt Akabs skal upprætt. Ég mun tortíma öllum karlmönnum af ætt Akabs til síðasta manns. 9 Ég mun fara með ætt Akabs eins og ætt Jeróbóams Nebatssonar og eins og ætt Basa Ahíasonar. 10 Hundar munu éta Jesebel á landi Jesreelborgar og enginn mun grafa hana.“ Því næst opnaði hann dyrnar og flýtti sér burt.

Uppreisn Jehú

11 Þegar Jehú kom aftur út til manna húsbónda síns spurðu þeir hann: „Er eitthvað að? Hvað vildi þessi vitfirringur þér?“ Hann svaraði þeim: „Þið þekkið þennan mann og þvaðrið í honum.“ 12 Þeir sögðu: „Það er ósatt. Segðu okkur frá þessu.“ Hann svaraði: „Maðurinn sagði: Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.“ 13 Tóku þeir þá yfirhafnir sínar í skyndi, breiddu þær frammi fyrir honum á berar tröppurnar, þeyttu hafurshornið og hrópuðu: „Jehú er konungur.“