Jóram Júdakonungur

16 Á fimmta stjórnarári Jórams Akabssonar, konungs í Ísrael, á meðan Jósafat var enn Júdakonungur, varð Jóram Jósafatsson konungur.[ 17 Hann var þrjátíu og tveggja ára þegar hann varð konungur og ríkti átta ár í Jerúsalem. 18 Hann breytti á sama hátt og konungar Ísraels, eins og ætt Akabs, enda var dóttir Akabs eiginkona hans. Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. 19 Þrátt fyrir það vildi Drottinn ekki eyða Júda vegna Davíðs, þjóns síns, en hann hafði heitið honum að hann skyldi ætíð hafa lampa frammi fyrir augliti Drottins.
20 Á dögum Jórams brutust Edómítar undan valdi Júda og tóku sér sinn eigin konung. 21 Jóram hélt þá til Saír með alla hervagna sína. Um nóttina, þegar hann réðst á Edómíta sem höfðu umkringt hann og foringja vagnliðsins, flýðu liðsmenn hans til búða sinna. 22 Þannig braust Edóm undan valdi Júda og hefur verið sjálfstætt ríki til þessa dags. Á sama tíma braust Líbna[ einnig undan Júda.
23 Það sem ósagt er af sögu Jórams og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 24 Jóram var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs. Ahasía, sonur hans, varð konungur eftir hann.

Ahasía Júdakonungur

25 Á tólfta stjórnarári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs varð Ahasía Jóramsson konungur yfir Júda. 26 Ahasía var tuttugu og tveggja ára þegar hann varð konungur og hann ríkti eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalja, dóttir Omrí, konungs í Ísrael. 27 Ahasía breytti eins og ætt Akabs og gerði það sem illt var í augum Drottins eins og ætt Akabs því að hann var venslaður[ Akab.
28 Hann fór með Jóram Akabssyni í stríð gegn Hasael Aramskonungi við Ramót í Gíleað. En Aramearnir særðu Jóram konung svo að hann 29 sneri heim til Jesreel. Þar ætlaði hann að láta sárin gróa sem Aramearnir höfðu veitt honum við Rama þegar hann barðist gegn Hasael Aramskonungi. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór að heimsækja Jóram Akabsson í Jesreel af því að hann var veikur.