6. kafli

Umsátur um Samaríu

24 Nokkru síðar safnaði Benhadad Aramskonungur öllum her sínum saman, hélt upp til Samaríu og settist um hana. 25 Á meðan þeir sátu um Samaríu varð þar svo mikil hungursneyð að eitt asnahöfuð kostaði áttatíu sikla silfurs og fjórðungur úr kab af dúfnadriti kostaði fimm sikla.
26 Einu sinni, þegar Ísraelskonungur var á göngu uppi á borgarmúrnum, hrópaði kona nokkur til hans: „Hjálpaðu okkur, herra minn og konungur.“ 27 Hann svaraði: „Ef Drottinn hjálpar þér ekki hvert á ég þá að sækja hjálp handa þér? Til þreskivallarins eða vínpressunnar?“ 28 Síðan spurði konungurinn: „Hvað amar að þér?“ Hún svaraði: „Konan þarna lagði þetta til við mig: Komdu með son þinn svo að við getum etið hann í dag en son minn á morgun. 29 Við suðum svo son minn og átum hann. Daginn eftir sagði ég við hana: Komdu nú með son þinn svo að við getum etið hann. En hún hafði þá falið hann.“ 30 Þegar konungur heyrði orð konunnar reif hann klæði sín. Þar sem hann gekk áfram eftir múrnum sá fólkið að hann bar hærusekk næst líkama sínum. 31 En nú hrópaði hann: „Megi Drottinn gera mér hvað sem er ef höfuðið situr á Elísa Safatssyni daginn á enda.“
32 Elísa dvaldist í húsi sínu og öldungarnir sátu þar hjá honum þegar konungur sendi mann til hans. En áður en sendiboðinn var kominn sagði Elísa við öldungana: „Gerið þið ykkur grein fyrir að þessi morðingi hefur sent mann til þess að höggva af mér höfuðið? Gætið þess að loka dyrunum þegar sendiboðinn kemur og standið fyrir hurðinni svo að hann komist ekki inn. Ég heyri fótatak húsbónda hans á eftir honum.“ 33 Á meðan hann var enn að tala við þá kom konungurinn og sagði: „Böl þetta kemur frá Drottni. Hvers get ég framar vænst af honum?“

7. kafli

1 Elísa svaraði: „Heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn: Um þetta leyti á morgun mun ein sea af hveiti aðeins kosta einn sikil á markaði í hliði Samaríu og tvær seur af byggi munu aðeins kosta einn sikil.“ 2 Liðsforingi sá er konungur studdist við svaraði guðsmanninum og sagði: „Þó að Drottinn setti raufar á himininn gæti þetta ekki orðið.“ En Elísa sagði: „Þú skalt sjá þetta með eigin augum en sjálfur skaltu einskis af því neyta.“

Samaríu bjargað úr umsátrinu

3 Fjórir holdsveikir menn voru úti fyrir borgarhliðinu. Þeir sögðu hver við annan: „Hvers vegna ættum við að sitja hér og bíða dauðans? 4 Ef við ákveðum að fara inn í borgina þar sem hungursneyð ríkir munum við deyja þar og ef við sitjum hér áfram munum við einnig deyja. Komum því héðan og förum yfir í herbúðir Aramea. Ef þeir láta okkur lifa lifum við og ef þeir drepa okkur deyjum við.“
5 Þeir lögðu síðan af stað í rökkrinu og héldu til herbúða Aramea. Þegar þeir komu að útjaðri herbúðanna var þar enginn. 6 En Drottinn hafði látið hermönnum Aramea berast til eyrna vagnskrölt, hófadyn og hávaða frá miklum her svo að þeir sögðu hver við annan: „Ísraelskonungur hefur leigt konunga Hetíta og Egypta til þess að ráðast á okkur.“ 7 Þeir spruttu upp í rökkrinu og flýðu en létu eftir tjöld sín, hesta og asna, herbúðirnar eins og þær voru. Þeir flýðu til að bjarga lífi sínu.
8 Þegar holdsveiku mennirnir komu að útjaðri herbúðanna fóru þeir inn í eitt tjaldið, fengu sér þar að eta og drekka og höfðu að því búnu á brott með sér þaðan silfur, gull og fatnað og földu. Síðan sneru þeir aftur og fóru inn í annað tjald, tóku það sem þeir fundu, höfðu á brott með sér og földu.