Elía og Ahasía konungur

1 Eftir lát Akabs gerði Móab uppreisn gegn Ísrael.
2 Ahasía féll í gegnum handriðið á efri hæð húss síns í Samaríu og meiddist. Hann sendi þá menn með þessi fyrirmæli: „Farið og leitið svara hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, um það hvort ég muni ná mér eftir þessi meiðsli.“ 3 En engill Drottins hafði sagt við Elía frá Tisbe: „Farðu af stað og haltu til móts við sendimenn Samaríukonungs og segðu við þá: Er enginn Guð í Ísrael fyrst þið farið til þess að leita svara hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron? 4En þar sem þið gerið það segir Drottinn: Þú skalt ekki framar rísa úr rekkjunni, sem þú ert lagstur í, því að þú skalt deyja.“ Elía hélt síðan á brott.
5 Þegar sendimennirnir komu aftur til konungs spurði hann: „Hvers vegna eruð þið komnir aftur nú þegar?“ 6 Þeir svöruðu: „Maður kom á móti okkur og sagði: Farið aftur til konungsins, sem sendi ykkur, og segið: Svo segir Drottinn: Sendir þú sendiboða til þess að leita svara hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, af því að enginn guð er í Ísrael? Þar sem þú gerðir það skaltu ekki framar rísa úr rekkjunni, sem þú ert lagstur í, því að þú skalt deyja.“ 7 Þá spurði konungur: „Hvernig leit maðurinn út sem kom á móti ykkur og sagði þetta við ykkur?“ 8 Þeir svöruðu: „Hann var í skinnfeldi og gyrtur leðurbelti um lendar sér.“ „Þetta hefur verið Elía frá Tisbe,“ sagði konungur.
9 Þessu næst sendi hann höfuðsmann yfir fimmtíu manna herflokki ásamt liði sínu til Elía þar sem hann sat á tindi fjallsins.[ Höfuðsmaðurinn sagði við hann: „Guðsmaður, konungurinn skipar þér að koma niður.“ 10 Elía svaraði og sagði við höfuðsmanninn: „Sé ég guðsmaður skal eldur koma af himni og gleypa þig og flokk þinn.“ Þegar í stað kom eldur af himni og gleypti höfuðsmanninn og flokk hans.
11 Konungur sendi þá til hans annan höfuðsmann yfir fimmtíu manna flokki ásamt liði sínu. Þegar hann kom upp sagði hann við Elía: „Guðsmaður, svo segir konungurinn: Komdu niður þegar í stað.“ 12 Elía svaraði og sagði við hann: „Sé ég guðsmaður skal eldur koma af himni og gleypa þig og flokk þinn.“ Eldur Guðs kom þegar í stað af himni ofan og gleypti höfuðsmanninn og flokk hans.
13 Konungur sendi nú þriðja höfuðsmanninn yfir fimmtíu manna flokki ásamt liði sínu. Þegar hann kom upp féll hann á kné fyrir Elía, bað hann og sagði: „Guðsmaður, met þú líf mitt og líf þessara fimmtíu þræla þinna einhvers. 14 Nú hefur eldur komið af himni og gleypt báða fyrri höfuðsmennina og fimmtíu manna lið þeirra. Megi nú líf mitt vera þér einhvers virði.“
15 Engill Drottins sagði þá við Elía: „Farðu með höfuðsmanninum og vertu ekki hræddur við hann.“ Elía stóð þá á fætur og fór með honum niður til konungs 16 og sagði við hann: „Svo segir Drottinn: Þar sem þú sendir menn til að leita svara hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, eins og enginn guð væri í Ísrael sem hægt væri að leita til, skaltu ekki framar rísa úr rekkjunni, sem þú ert lagstur í, heldur skaltu deyja.“
17 Síðan dó Ahasía eins og Drottinn hafði boðað fyrir munn Elía. Jóram varð konungur eftir hann á öðru stjórnarári Jórams Jósafatssonar Júdakonungs því að Ahasía átti engan son.
18 Það sem ósagt er af sögu Ahasía og verkum hans er skráð í annála Ísraelskonunga.