Fæðing Jóhannesar

57 Nú kom sá tími að Elísabet skyldi verða léttari og ól hún son. 58 Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni og samfögnuðu henni.
59 Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. 60Þá mælti móðir hans: „Eigi skal hann svo heita heldur Jóhannes.“
61 En þeir sögðu við hana: „Enginn er í ætt þinni sem heitir því nafni.“ 62 Bentu þeir þá föður hans að hann léti þá vita hvað sveinninn skyldi heita.
63 Hann bað um spjald og reit: „Jóhannes er nafn hans,“ og urðu þeir allir undrandi. 64 Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga. Hann fór að tala og lofaði Guð. 65 En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. 66 Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: „Hvers má vænta af þessu barni?“ Því að hönd Drottins var með honum.