12því að hann bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp,
og lítilmagnanum sem enginn hjálpar.
13Hann miskunnar sig yfir bágstadda og snauða
og bjargar lífi hinna fátæku,
14frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá
því að blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15Megi hann lifa og hljóti hann gull frá Saba,
sífellt biðji menn fyrir honum
og blessi hann liðlangan daginn.
16Gnóttir korns verði í landinu,
bylgist það á fjallatindunum.
Verði afrakstur þess líkur Líbanonsskógi
og spretti menn upp í borgum eins og gras á velli.
17Nafn hans vari að eilífu,
megi nafn hans gróa meðan sólin skín,
allar þjóðir jarðar óski sér blessunar með honum
og segi hann sælan.
18Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels,
sem einn vinnur máttarverk.
19Lofað sé hans dýrlega nafn um aldur og ævi
og öll jörðin fyllist dýrð hans!
Amen, amen.

Hér lýkur bænum Davíðs Ísaísonar.