19 Þegar Móse nálgaðist búðirnar og sá kálfinn og hringdansinn blossaði reiði hans upp og hann kastaði töflunum úr höndum sér og molaði þær við fjallsræturnar. 20 Síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gert, brenndi hann í eldi, muldi hann mélinu smærra og dreifði duftinu í vatn sem hann lét Ísraelsmenn drekka. 21 Því næst spurði Móse Aron: „Hvað hefur þetta fólk gert þér að þú hefur leitt yfir það svo mikla synd?“ 22 Aron svaraði: „Reiðstu ekki, herra. Þú veist sjálfur að fólkið er taumlaust. 23 Það sagði við mig: Gerðu okkur guði sem geta farið fyrir okkur því að við vitum ekki hvað orðið er um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út af Egyptalandi. 24 Þá sagði ég við fólkið: Sérhver sem ber gullskart slíti það af sér. Þeir fengu mér það, ég kastaði því í eldinn og úr því varð þessi kálfur.“
25 Þegar Móse sá að fólkið var taumlaust af því að Aron hafði sleppt af því taumhaldinu svo að óvinir höfðu það að spotti, 26 staðnæmdist hann í hliði búðanna og sagði: „Hver sem fylgir Drottni komi til mín.“ Þá söfnuðust allir Levítar að honum. 27 Hann sagði við þá: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Hver maður skal festa sverð sitt sér við hlið og fara síðan um herbúðirnar frá einu hliði til annars og drepa bróður sinn, vin og nágranna.“ 28 Levítarnir gerðu sem Móse bauð og féllu þrjú þúsund manns af þjóðinni þennan dag. 29 Þá sagði Móse: „Fyllið hendur ykkar í dag með gjöfum Drottni til handa því að hver og einn hefur snúist gegn syni sínum og bróður svo að hann blessi ykkur í dag.“
30 Morguninn eftir sagði Móse við fólkið: „Þið hafið drýgt stóra synd. Nú ætla ég að fara upp til Drottins. Ef til vill get ég friðþægt fyrir synd ykkar.“ 31 Móse sneri því aftur til Drottins og sagði: „Þetta fólk hefur drýgt stóra synd. Það hefur gert sér guð úr gulli. 32 Nú bið ég að þú fyrirgefir synd þess. En getirðu það ekki máðu mig þá út úr bók þinni sem þú hefur skrifað.“ 33 Drottinn sagði við Móse: „Úr bók minni mái ég hvern þann sem hefur syndgað gegn mér. 34 Farðu nú og leiddu fólkið þangað sem ég hef sagt þér. Engill minn mun ganga á undan þér. Þegar dagur reikningsskilanna kemur mun ég draga þá til ábyrgðar vegna synda þeirra.“
35 Drottinn sendi plágu yfir þjóðina vegna kálfsins sem hún hafði látið Aron gera.