Ríki bóndinn

13 Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“
14 Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ 15Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“
16 Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. 17 Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. 18 Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. 19 Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
20 En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? 21 Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Ekki áhyggjufullir

22 Og Jesús sagði við lærisveina sína: „Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. 23 Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin. 24 Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum! 25 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn?[ 26 Fyrst þér nú orkið ekki svo litlu, hví látið þér allt hitt valda yður áhyggjum? 27 Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.
28 Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir!
29 Hafið ekki hugann við hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu. 30 Allt þetta stunda heiðingjar heimsins en faðir yðar veit að þér þarfnist þessa. 31 Leitið heldur ríkis hans og þá mun þetta veitast yður að auki.