Augað er lampi líkamans
33 Enn sagði Jesús: „Enginn kveikir ljós og setur það í felur né undir mæliker heldur á ljósastiku svo að þeir sem inn koma sjái ljósið. 34 Auga þitt er lampi líkamans.
Þegar auga þitt er heilt þá er og allur líkami þinn bjartur en sé það spillt þá er og líkami þinn dimmur. 35 Gæt því þess að ljósið í þér sé ekki myrkur. 36 Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum verður hann allur í birtu eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum.“
Hið ytra og innra
37 Þá er Jesús hafði þetta mælt bauð farísei nokkur honum til dagverðar hjá sér. Jesús kom og settist til borðs. 38 Faríseinn sá að hann þvoði ekki hendur sínar á undan máltíðinni og furðaði hann á því. 39 Drottinn sagði þá við hann: „Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku. 40 Þér heimskingjar, hefur sá sem gerði hið ytra ekki einnig gert hið innra? 41 En gefið fátækum það sem í er látið og þá er allt yður hreint.
42 En vei yður, þér farísear! Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu[ og alls kyns matjurtum en hirðið ekki um réttlætið og kærleikann til Guðs. Þetta ber að gera og hitt eigi ógert að láta. 43Vei yður, þér farísear! Yður er ljúft að skipa æðsta bekk í samkundum og láta heilsa yður á torgum. 44 Vei yður, því þér eruð eins og duldar grafir sem menn ganga yfir án þess að vita.“
45 Þá tók lögvitringur einn til orða: „Meistari, þú meiðir okkur líka með því sem þú segir.“
46 En Jesús mælti: „Vei yður líka, þér lögvitringar! Þér leggið á menn lítt bærar byrðar og sjálfir snertið þér ekki byrðarnar einum fingri. 47 Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna sem feður yðar líflétu. 48 Þannig berið þér vitni um athafnir feðra yðar og samþykkið þær. Þeir líflétu þá en þér hlaðið upp grafirnar. 49 Þess vegna hefur og speki Guðs sagt: Ég mun senda þeim spámenn og postula og suma þeirra munu þeir lífláta og ofsækja. 50 Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims, 51 frá blóði Abels til blóðs Sakaría sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þessi kynslóð verður látin gjalda fyrir það.
52 Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið hrifsað til yðar lykil viskunnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn og þeim hafið þér varnað sem inn vildu ganga.“
53 Og er Jesús var farinn út þaðan tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt 54 og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.