Þessi er sonur minn

28 Um átta dögum eftir ræðu þessa tók Jesús með sér þá Pétur, Jóhannes og Jakob og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir. 29 Og er hann var að biðjast fyrir varð yfirlit ásjónu hans annað og klæði hans urðu hvít og skínandi. 30 Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía. 31 Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans sem hann skyldi fullna í Jerúsalem. 32 Þá Pétur og félaga hans sótti mjög svefn en nú vöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo er stóðu hjá honum. 33 Þegar þeir voru að skilja við Jesú mælti Pétur við hann: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Ekki vissi Pétur hvað hann sagði.
34 Um leið og Pétur mælti þetta kom ský og skyggði yfir þá og urðu þeir hræddir er þeir komu inn í skýið. 35 Og rödd kom úr skýinu og sagði: „Þetta er sonur minn sem ég hef útvalið, hlýðið á hann!“ 36 Er röddin hafði talað var Jesús einn. Og þeir þögðu og sögðu á þeim dögum engum frá neinu því sem þeir höfðu séð.

Jesús læknar svein

37 Daginn eftir, er Jesús og lærisveinarnir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti Jesú. 38 Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: „Meistari, ég bið þig að líta á son minn því að hann er einkabarnið mitt. 39 Það er andi sem grípur hann og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir og víkur varla frá honum og er að gera út af við hann. 40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“
41 Jesús svaraði: „Þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur og umbera ykkur? Fær þú hingað son þinn.“
42 Þegar sveinninn var að koma slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans. 43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs.

Þeir skildu ekki

Þá er allir dáðu allt það er hann gerði sagði Jesús við lærisveina sína: 44 „Festið þessi orð í huga: Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur.“ 45 En þeir skildu ekki hvað hann átti við. Það var þeim hulið til þess að þeir gætu ekki skilið það. Og þeir þorðu ekki að spyrja Jesú um þetta.