8. kafli

Trú þú aðeins

40 En er Jesús kom aftur fagnaði mannfjöldinn honum því að allir væntu hans. 41 Þá kom þar maður, Jaírus að nafni, forstöðumaður samkundunnar. Hann féll til fóta Jesú og bað hann koma heim til sín 42 því að hann átti einkadóttur, um tólf ára að aldri, og hún lá fyrir dauðanum.
Þegar Jesús var á leiðinni þrengdi mannfjöldinn að honum. 43 Þar var kona sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði leitað lækna og varið til aleigu sinni[ en enginn getað læknað hana. 44 Hún kom að baki Jesú og snart fald klæða hans og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar. 45Jesús sagði: „Hver var það sem snart mig?“
En er allir synjuðu fyrir það sagði Pétur: „Meistari, mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á.“
46 En Jesús sagði: „Einhver snart mig því að ég fann að kraftur fór út frá mér.“ 47 En er konan sá að hún fékk eigi dulist kom hún skjálfandi, féll til fóta Jesú og skýrði frá því í áheyrn alls fólksins hvers vegna hún snart hann og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast. 48 Jesús sagði þá við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.“
49 Meðan Jesús var að segja þetta kemur maður heiman frá samkundustjóranum og segir: „Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur.“
50 En er Jesús heyrði þetta sagði hann við hann: „Óttast ekki, trú þú aðeins og mun hún heil verða.“
51 Þegar hann kom að húsinu leyfði hann engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi og Jakobi og föður stúlkunnar og móður. 52 Og allir grétu og syrgðu hana. Jesús sagði: „Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur.“ 53 En þeir hlógu að honum þar eð þeir vissu að hún var dáin. 54 Hann tók þá hönd hennar og kallaði: „Stúlka, rís upp!“ 55 Og andi hennar kom aftur og hún reis þegar upp en hann bauð að gefa henni að eta. 56 Foreldrar hennar urðu frá sér numdir en Jesús bauð þeim að segja engum frá þessum atburði.

9. kafli

Postular sendir

1 Jesús kallaði saman þá tólf og gaf þeim mátt og vald yfir öllum illum öndum og til að lækna sjúkdóma. 2 Hann sendi þá að boða Guðs ríki og græða sjúka 3 og sagði við þá: „Takið ekkert til ferðarinnar, hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla. 4 Og hvar sem þið fáið inni, þar sé aðsetur ykkar og þaðan skuluð þið leggja upp að nýju. 5 En taki menn ekki við ykkur, þá farið úr borg þeirra og hristið dustið af fótum ykkar til vitnisburðar gegn þeim.“
6 Þeir lögðu af stað og fóru um þorpin, fluttu fagnaðarerindið og læknuðu hvarvetna.