Móðir og bræður

19 Móðir Jesú og bræður komu til hans en gátu ekki náð fundi hans vegna mannfjöldans. 20Var honum sagt: „Móðir þín og bræður standa úti og vilja finna þig.“ 21 En Jesús svaraði þeim: „Móðir mín og bræður eru þau sem heyra Guðs orð og breyta eftir því.“

Í stormi

22 Dag einn fór Jesús út í bát og lærisveinar hans. Hann sagði við þá: „Förum yfir um vatnið.“ Og þeir létu frá landi. 23 En sem þeir sigldu sofnaði hann. Þá skall stormhrina á vatnið svo að nær fyllti bátinn og voru þeir hætt komnir. 24 Þeir fóru þá til Jesú, vöktu hann og sögðu: „Meistari, meistari, við förumst!“
En Jesús vaknaði og hastaði á vindinn og öldurótið og slotaði þegar og gerði logn. 25 Og hann sagði við þá: „Hvar er trú ykkar?“
En þeir urðu hræddir og undruðust og sögðu hver við annan: „Hver er þessi? Hann skipar bæði vindum og vatni og hvort tveggja hlýðir honum.“

Í byggð Gerasena

26 Þeir tóku land í byggð Gerasena sem er gegnt Galíleu. 27 Er Jesús sté á land kom á móti honum maður nokkur úr borginni sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi heldur í gröfunum. 28 Þegar hann sá Jesú æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: „Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!“ 29 Því að Jesús hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir.
30 Jesús spurði hann: „Hvað heitir þú?“ En hann sagði: „Hersing“ því að margir illir andar höfðu farið í hann. 31 Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið.[
32 En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau og hann leyfði þeim það. 33 Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin og hjörðin ruddist fram af brattanum í vatnið og drukknaði.
34 En er hirðarnir sáu hvað orðið var flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. 35Menn fóru þá að sjá hvað gerst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir. 36 Sjónarvottar sögðu þeim frá hvernig óði maðurinn hafði orðið heill. 37 Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur.
38 Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum en Jesús lét hann fara og mælti: 39 „Far aftur heim til þín og seg þú frá hve mikið Guð hefur gert fyrir þig.“ Maðurinn fór og kunngjörði um alla borgina hve mikið Jesús hafði gert fyrir hann.