Þær hjálpuðu þeim

1 Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf 2 og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, 3 Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Sæði sáð

4 Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: 5 „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. 6 Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. 7 Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. 8 En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“
9 En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. 10 Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.
11 En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. 12 Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. 13 Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. 14 Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. 15 En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.

Ljós á ljósastiku

16 Enginn kveikir ljós og byrgir það með keri eða setur undir bekk heldur láta menn það á ljósastiku að þeir sem inn koma sjái ljósið.
17 Því að ekkert er hulið sem eigi verður opinbert né leynt að eigi verði það kunnugt og komi í ljós.
18 Gætið því að hvernig þið heyrið. Því að þeim sem hefur mun gefið verða og frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða jafnvel það sem hann ætlar sig hafa.“