Syndir fyrirgefnar
36 Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. 37En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, 38 nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi,[ tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. 39 Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
40 Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“
41 „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara[ en hinn fimmtíu. 42 Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“
43 Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“
Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ 44 Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. 45 Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. 46 Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. 47 Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ 48 Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“
49 Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
50 En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“