Ert þú sá sem koma skal?

18 Lærisveinar Jóhannesar sögðu honum frá öllu þessu. Jóhannes kallaði þá til sín tvo lærisveina sína, 19 sendi þá til Drottins og lét spyrja: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“
20 Mennirnir fóru til hans og sögðu: „Jóhannes skírari sendi okkur til þín og spyr: Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“
21 Á þeirri stundu læknaði hann marga af sjúkdómum, meinum og illum öndum og gaf mörgum blindum sýn. 22 Og hann svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast[ og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. 23 Og sæll er sá sem hafnar ekki því sem ég geri.“

Meira en spámaður

24 Þá er sendimenn Jóhannesar voru farnir burt tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þið að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? 25 Hvað fóruð þið að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, í konungssölum er þá að finna sem skartklæðin bera og lifa í sællífi. 26 Hvað fóruð þið þá að sjá? Spámann? Já, segi ég ykkur, og það meira en spámann. 27 Hann er sá sem um er ritað:
Ég sendi sendiboða minn á undan þér,
hann á að ryðja þér braut.

28 Ég segi ykkur: Enginn er sá af konu fæddur sem er meiri en Jóhannes. En hinn minnsti í Guðs ríki er honum meiri.“
29 Og allir sem á hlýddu, jafnvel tollheimtumenn, viðurkenndu að hér var Guð að verki og létu skírast af Jóhannesi. 30 En farísear og lögvitringar gerðu að engu áform Guðs um þá og létu Jóhannes ekki skíra sig.
31 „Við hvað á ég þá að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverju eru þeir líkir? 32 Líkir eru þeir börnum sem á torgi sitja og kallast á: Við lékum fyrir ykkur á flautu og ekki vilduð þið dansa. Við sungum ykkur sorgarljóð og ekki vilduð þið gráta. 33 Nú kom Jóhannes skírari, át hvorki brauð né drakk vín, og þið segið: Hann hefur illan anda. 34 Og Mannssonurinn er kominn, etur og drekkur og þið segið: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og syndara! 35 En öll börn spekinnar sjá og játa hvar hún er að verki.“