Mæl þú eitt orð

1 Þá er Jesús hafði lokið við að tala við fólkið fór hann til Kapernaúm. 2 Hundraðshöfðingi nokkur hafði þjón sem hann mat mikils. Þjónninn var sjúkur og dauðvona. 3 Þegar hundraðshöfðinginn heyrði um Jesú sendi hann til hans öldunga Gyðinga og bað hann koma og bjarga lífi þjóns síns. 4 Þeir komu til Jesú, báðu hann ákaft og sögðu: „Verður er hann þess að þú veitir honum þetta 5 því að hann elskar þjóð okkar og hann hefur reist samkunduna handa okkur.“
6 Jesús fór með þeim. Þegar hann átti skammt til hússins sendi hundraðshöfðinginn vini sína til hans og lét segja við hann: „Ómaka þig ekki, Drottinn, því að ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. 7 Þess vegna hef ég ekki heldur talið sjálfan mig verðan þess að koma til þín. En mæl þú eitt orð og mun sveinn minn heill verða. 8 Því að sjálfur er ég maður sem verður að lúta valdi og ræður yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer og við annan: Kom þú, og hann kemur og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“
9 Þegar Jesús heyrði þetta furðaði hann sig á honum, sneri sér að mannfjöldanum sem fylgdi honum og mælti: „Ég segi ykkur, ekki einu sinni í Ísrael hef ég fundið þvílíka trú.“ 10Sendimenn sneru þá aftur heim og fundu þjóninn heilan heilsu.

Grát þú eigi

11 Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. 12 Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. 13 Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ 14Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ 15 Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.
16 En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“
17 Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.