8. kafli
15 Mordekaí gekk út frá konungi í konunglegum skrúða, fjólubláum og hvítum. Hann bar stóra gullkórónu á höfði og var klæddur möttli úr drifhvítu og purpurarauðu líni. Og fagnaðaróp kváðu við í borginni Súsa. 16 Gyðingar nutu ljóss og gleði, fagnaðar og heiðurs. 17 Í öllum héruðum og öllum borgum, þar sem tilskipun og lög konungs voru birt, glöddust Gyðingar og fögnuðu, héldu veislur og gerðu sér þann dag margt til hátíðabrigða. Og margir íbúar af öðru þjóðerni tóku Gyðingatrú því að ótti við Gyðinga var yfir þá kominn.
9. kafli
Púrímdagarnir
1 Þrettánda dag tólfta mánaðar, mánaðarins adar, skyldi framfylgja tilskipun og lagaboði konungs. Þann dag höfðu óvinir Gyðinga vænst þess að ná þeim á vald sitt en það fór á annan veg. Nú kom það í hlut Gyðinga sjálfra að yfirbuga fjandmenn sína. 2 Gyðingar söfnuðust saman í borgum sínum í öllum héruðum konungsríkis Xerxesar til að ráðast gegn hverjum þeim sem reyndi að vinna þeim mein. Enginn gat veitt þeim viðnám enda stóð nú öllum þjóðum ógn af þeim. 3 Héraðshöfðingjar, skattlandsstjórar, landshöfðingjar og embættismenn konungs lögðu allir Gyðingum lið vegna þess að þeir óttuðust Mordekaí, 4 en áhrif Mordekaí voru orðin mikil við hirð konungs og fór miklum sögum af honum um öll héruðin. Völd Mordekaí fóru sívaxandi. 5 Gyðingar hjuggu óvini sína með sverði, drápu þá og eyddu þeim. Fjandmenn sína léku þeir eins og þá lysti. 6 Í virkisborginni Súsa drápu Gyðingar og tortímdu fimm hundruðum manna. 7 Þeir drápu einnig þá Parsandata, Dalfón, Aspata, 8 Pórata, Adalja, Arídata, 9 Parmasta, Arísaí, Arídaí og Vajsata, 10 tíu syni Hamans, sonar Hamdata, hatursmanns Gyðinga. En ránsfeng tóku þeir engan.
11 Sama dag var konungi greint frá fjölda þeirra sem drepnir höfðu verið í virkisborginni Súsa. 12 Konungur sagði þá við Ester drottningu: „Í virkisborginni Súsa hafa Gyðingar nú banað og tortímt fimm hundruð mönnum og tíu sonum Hamans að auki. Hvað skyldu þeir hafa gert í öðrum héruðum konungsríkisins? En hver er ósk þín? Hún skal veitast þér. Eigirðu enn einhverja bón skal ég verða við henni.“
13 Ester svaraði: „Þóknist það konungi skal Gyðingum í virkisborginni Súsa heimilað að fara hinu sama fram á morgun og í dag og hinir tíu synir Hamans skulu festir á gálga.“
14 Konungur skipaði að þetta skyldi gert og var tilskipun birt í Súsa. Tíu synir Hamans voru festir á gálga. 15 Gyðingar í Súsa söfnuðust enn saman á fjórtánda degi mánaðarins adar og drápu þrjú hundruð manns í Súsa. Ekki tóku þeir þó neinn ránsfeng.
16 Aðrir Gyðingar, sem bjuggu í héruðum konungsríkisins, söfnuðust einnig saman til að verja sig og öðlast frið fyrir óvinum sínum. Þeir drápu sjötíu og fimm þúsund fjandmanna en tóku engan ránsfeng. 17 Þetta gerðu þeir á þrettánda degi mánaðarins adar en tóku sér hvíld fjórtánda dag mánaðarins og gerðu hann að hátíðar- og veisludegi. 18 Gyðingar þeir sem bjuggu í Súsa höfðu hins vegar safnast saman bæði þrettánda og fjórtánda dag mánaðarins. Fimmtánda daginn tóku þeir sér hvíld og gerðu þann dag að fagnaðar- og veisludegi. 19Vegna þessa hafa Gyðingar í afskekktum sveitaþorpum þann sið að gera sér fjórtánda dag mánaðarins adar að hátíðar-, veislu- og gleðidegi og skiptast menn þá á matargjöfum.