3. kafli

12 Á þrettánda degi fyrsta mánaðarins var riturum konungs stefnt saman og tilskipun skráð sem í öllu var eftir fyrirmælum Hamans. Var hún síðan send öllum skattlandsstjórum konungs, svo og héraðshöfðingjum og leiðtogum sérhverrar þjóðar, til hvers héraðs með letri því sem þar var notað og til hverrar þjóðar á tungu hennar. Var tilskipunin gefin í nafni Xerxesar konungs og staðfest með innsigli hans. 13 Bréfin voru síðan send með hraðboðum til allra héraða konungsríkisins. Fyrirmælin voru þau að á einum degi, þrettánda degi tólfta mánaðarins, mánaðarins adar, skyldi eyða öllum Gyðingum, deyða þá og tortíma þeim, ungum og öldnum, jafnt konum sem börnum, en hald skyldi lagt á eigur þeirra. 14 Þá skyldi einnig gefið út eftirrit af bréfinu. Lagagildi skyldi það hafa í hverju héraði og það birt öllum þjóðunum þannig að þær yrðu viðbúnar þessum degi. 15 Að boði konungs héldu hraðboðar af stað í skyndi, jafnskjótt og lögin höfðu verið kynnt í virkisborginni Súsa. Þeir konungur og Haman settust að drykkju en í Súsa voru menn felmtri slegnir.

4. kafli

Mordekaí biður um hjálp

1 Er Mordekaí frétti hvernig málum var komið reif hann klæði sín og klæddist sekk og ösku, gekk síðan út í miðja borgina, kveinaði hátt og beisklega 2 og gekk að hallarhliðinu. Inn um það mátti enginn fara sem klæddur var hærusekk. 3 Í öllum héruðum varð mikill harmur meðal Gyðinga þegar fregnaðist um boð konungs og tilskipun. Þeir föstuðu, grétu, börðu sér á brjóst og flestir gerðu sér flet úr sekk og ösku.