1 Eftir þennan atburð hækkaði Xerxes konungur Haman, son Hamdata og afkomanda Agags, í tign, hóf hann til mikilla metorða og setti hann yfir aðra höfðingja sína. 2 Að skipan konungs skyldu allir þjónar hans í hallarhliði falla á kné og lúta Haman. En Mordekaí féll hvorki á kné né laut honum. 3 Þá spurðu þjónar konungs í hallarhliði: „Hvers vegna hefurðu skipun konungs að engu?“ 4 Dag eftir dag höfðu þeir orð á þessu en hann skeytti því ekki. Þeir sögðu Haman frá þessu til að sjá hvort Mordekaí kæmist upp með þetta en hann hafði sagt þeim að hann væri Gyðingur. 5 Er Haman sá að Mordekaí féll hvorki á kné né laut honum varð hann afar reiður. 6 En honum þótti lítið unnið við að leggja hendur á Mordekaí einan. Hafði honum verið skýrt frá þjóðerni Mordekaí og hugleiddi Haman nú hvernig gereyða mætti samlöndum Mordekaí, öllum Gyðingum í ríki Xerxesar.
Tilskipun um tortímingu Gyðinga
7 Í fyrsta mánuði tólfta stjórnarárs Xerxesar, mánuðinum nísan, var hlutkesti varpað, svonefndum púr, að Haman viðstöddum. Með hlutkestinu skyldi ákvarðaður bæði mánuður og mánaðardagur. Hlutir féllu þannig að upp kom þrettándi dagur[ tólfta mánaðar ársins en sá mánuður nefnist adar.
8 Þá sagði Haman við Xerxes konung: „Meðal þjóðanna hvarvetna í héruðum ríkis þíns er ein þjóð sem hefur dreifst víða og sker sig úr öllum öðrum þjóðum. Lög þessarar þjóðar eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða, lög konungs virðir hún að vettugi. Verður ekki við það unað að konungur láti þetta óátalið. 9 Sé það konungi þóknanlegt þarf að gefa út skriflega tilskipun um að eyða þessari þjóð. Og sjálfur skal ég greiða fjárheimtumönnunum tíu þúsund talentur silfurs sem færðar verði í sjóði konungs.“
10 Þá dró konungur innsiglishring sinn af hendi sér og fékk hann Agagsniðjanum Haman, syni Hamdata og hatursmanni Gyðinga. 11 „Haltu silfrinu,“ sagði konungur við Haman, „og farðu með þessa þjóð eins og þú vilt.“