1. kafli

21 Þessi ráð féllu konungi og höfðingjum hans vel í geð og gerði konungur eins og Memúkan hafði lagt til. 22 Hann lét senda boð um öll héruð konungsríkisins, til hvers héraðs með letri þess héraðs og hverrar þjóðar á máli þeirrar þjóðar, að sérhver karlmaður skyldi vera húsbóndi á heimili sínu hver sem tunga hans væri.

2. kafli

Ester verður drottning

1 Síðar, er Xerxes konungi rann reiðin, minntist hann Vastí og athæfis hennar og einnig dómsins sem hún hafði hlotið. 2 Hirðsveinar konungs sögðu þá: „Nú skal leitað að ungum og fögrum meyjum handa konunginum. 3 Konungur setji til þess menn í öllum héruðum ríkisins að safna fallegum, ungum meyjum í kvennabúr konungs í virkisborginni Súsa. Þar skal Hegaí, geldingur konungs, sá sem gætir kvennanna, hafa umsjón með þeim og þeim skulu fengin fegrunarsmyrsl. 4 Sú stúlka, sem gengur í augun á konungi, skal síðan verða drottning í stað Vastí.“ Þetta féll konungi vel og fór hann að þessu ráði.
5 Í virkisborginni Súsa var Gyðingur að nafni Mordekaí, sonur Jaírs, sonar Símeí, sonar Kíss, af ætt Benjamíns. 6 Var hann í hópi þeirra sem Nebúkadnesar Babýloníukonungur tók til fanga og flutti burt frá Jerúsalem ásamt Jekonja Júdakonungi. 7 Mordekaí hafði tekið í fóstur Hadassa, það er Ester, dóttur föðurbróður síns, en hún átti hvorki föður né móður. Hún var fallega vaxin og fríð sýnum og hafði Mordekaí tekið hana sér í dóttur stað þegar faðir hennar og móðir önduðust.