Vegurinn, sannleikurinn, lífið

1 „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? 3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4 Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
5 Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
6 Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. 7 Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“
8 Filippus segir við hann: „Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“
9 Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? 10 Trúir þú ekki að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Það sem ég segi við yður eru ekki mín orð. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. 11 Trúið mér að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna.