Biblíulestur 10. maí – Heb 11.32-12.3

2019-03-10T18:34:53+00:00Föstudagur 10. maí 2019|

11. kafli

32 Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta og af Davíð, Samúel og spámönnunum. 33 Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna, 34 slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir þótt áður væru þeir veikir, gerðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta. 35 Konur heimtu sína framliðnu úr helju. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að öðlast betri upprisu. 36 Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi. 37 Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur,[ höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitaskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir. 38 Ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.
39 En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína fengu þeir þó ekki að sjá fyrirheitið rætast. 40 Guð hafði séð okkur fyrir því sem betra var: Án okkar skyldu þeir ekki fullkomnir verða.

12. kafli

Drottinn agar

1 Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. 2 Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. 3Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.

Title

Fara efst