17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum. 18 Við Abraham hafði Guð mælt: „Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir.“ 19 Hann hugði að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum og hann heimti líka son sinn úr helju ef svo má að orði komast.
20 Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig fyrir ókomna tíma.
21 Fyrir trú blessaði Jakob, að dauða kominn, báða sonu Jósefs, „laut fram á stafshúninn og baðst fyrir“.
22 Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelsmanna og gerði ráðstöfun fyrir beinum sínum.
23 Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans af því að þeir sáu að sveinninn var fríður og létu eigi skelfast af skipun konungsins. 24 Fyrir trú hafnaði Móse því er hann var orðinn fulltíða maður að vera talinn dóttursonur faraós 25 og kaus fremur að þola illt með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni. 26 Hann taldi háðung vegna Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands því að hann horfði fram til launanna. 27 Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega. 28 Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin til þess að eyðandinn snerti ekki frumburðina. 29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land og er Egyptar freistuðu þess drukknuðu þeir.
30 Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga. 31 Fyrir trú tók skækjan Rahab vinsamlega á móti njósnarmönnunum og fyrir bragðið fórst hún ekki ásamt hinum óhlýðnu.