Biblíulestur 30. apríl – Jónas 2.1-3.10

2019-03-10T18:23:17+00:00Þriðjudagur 30. apríl 2019|

2. kafli

Jónas syngur þakkarsálm

1 Drottinn sendi stóran fisk og lét hann gleypa Jónas og var Jónas í kviði fisksins í þrjá daga og þrjár nætur. 2 Úr kviði fisksins bað hann til Drottins, Guðs síns:
3Í neyð minni kallaði ég til Drottins
og hann svaraði mér.
Úr djúpi heljar hrópaði ég á hjálp
og þú heyrðir hróp mitt.
4Þú varpaðir mér niður á hyldýpi á reginhafi,
straumþunginn umlukti mig,
allar bylgjur þínar og boðaföll gengu yfir mig.
5Þá hugsaði ég:
Ég er burt rekinn frá augum þínum.
Samt mun ég enn fá
að líta þitt heilaga musteri.
6Vötnin ætluðu að drekkja mér,
hyldýpið umlukti mig
og þangið vafðist mér um höfuð.
7Ég steig niður að rótum fjallanna
og slagbrandar jarðarinnar skullu aftur að baki mér að eilífu.
En þú leiddir mig lifandi upp úr glötunargröfinni,
Drottinn Guð minn.
8Er ég var að dauða kominn
minntist ég Drottins
og bæn mín kom fram fyrir þig
í þínu heilaga musteri.
9Þeir sem dýrka fánýta hjáguði
hafa brugðið trúnaði við Drottin.
10En ég vil færa þér fórn
og syngja þér þakkarsálm.
Heitið, sem ég hef unnið, vil ég efna.
Hjálpin er hjá Drottni.
11 Þá bauð Drottinn fiskinum að spúa Jónasi upp á þurrt land.

3. kafli

Jónas fer til Níníve

1 Orð Drottins kom öðru sinni til Jónasar: 2 „Legg þú af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og prédikaðu fyrir henni þann boðskap sem ég mun greina þér frá.“ 3 Jónas lagði af stað og fór til Níníve eins og Drottinn hafði boðið.
En Níníve var svo firnastór borg að þrjár dagleiðir voru um hana þvera. 4 Jónas hóf nú göngu sína inn í borgina og er hann var kominn eina dagleið prédikaði hann: „Eftir fjörutíu daga verður Níníve lögð í rúst!“
5 Settu þá Nínívebúar traust sitt á Guð, boðuðu föstu og klæddust hærusekkjum, jafnt háir sem lágir.
6 Þegar fregnin barst konunginum í Níníve stóð hann upp úr hásæti sínu, svipti af sér tignarskrúðanum, huldi sig hærusekk, settist í ösku 7 og sendi kallara með svohljóðandi boð til Nínívebúa:
„Samkvæmt tilskipun konungs og höfðingja hans er svo fyrir mælt: Hvorki menn né skepnur, hvorki naut né sauðir skulu neins neyta og ekki skulu þau á gras ganga eða vatn drekka. 8Menn og dýr skulu sveipa sig hærusekkjum, hrópa til Guðs af öllum mætti, snúa frá sinni illu breytni og láta af því ofbeldi sem þau hafa framið. 9 Hver veit nema Guði snúist hugur og hann láti af sinni brennandi reiði svo að við förumst ekki.“
10 Guð sá hvað fólkið gerði, að það hafði látið af sinni illu breytni. Þá snerist honum hugur og hann ákvað að valda fólkinu ekki þeirri ógæfu sem hann hafði boðað og refsa því ekki.

Title

Fara efst