Í gær, 26. apríl, var aðalfundur HÍB haldinn í Neskirkju. Fundurinn fór vel fram, boðið var upp á dýrindis súpu og ljómandi gott brauð og að sjálfsögðu kaffi.

Helstu fréttir af fundinum eru þær að úr stjórn gengu þeir Guðni Einarsson og Rúnar Vilhjálmsson. Guðni hefur verið í stjórn félagsins í áraraðir og unnið þar afskaplega gott starf og eru honum færðar þakkir við þau tímamót. Rúnar hefur verið skemur í stjórn félagsins en hefur verið afar sterkur stjórnarmaður og valist til ábyrgðar. Sömuleiðs eru honum færðar þakkir fyrir góð störf. HÍB óskar og þeim félögum velfarnaðar í hverju því sem þeir taka sér fyrir hendur.

Nýir stjórnarmenn voru kosnin: Fjalar Freyr Einarsson og Hrönn Svansdóttir. Eru þau boðin velkomin til starfa og hefur félagið væntingar um að þau eigi eftir að verða dugandi stjórnarmenn.

Á aðalfundinum var og tekin ákvörðun að hækka félagsgjaldið úr 2000 krónum, en þannig hefur það verið óbreytt í mörg ár, í 3000 krónur.

Að öðru leyti fóru hefðbundin aðalfundarstörf fram með glæsibrag undir vasklegri fundarstjórn eins stjórnarmanna félagsins, Ástu Sóllilju Sigurbjörnsdóttur.

Hér er meðfylgjandi frétt þessari skýrsla stjórnar HÍB fyrir síðasta starfsár, en hana flutti séra Grétar Halldór Gunnarsson varaforseti félagsins á fundinum. ÁrsskýrslaHíB2019

Meðfylgjandi mynd sýnir frú Agnesi Sigurðardóttur biskup og forseta HÍB, Guðna Einarsson og Rúnar Vilhjálmsson, en forseti færði þeim gjafir og flutti þeim þakkir fyrir frábært starf. 

Með kærri kveðju og Guðs blessun,

Guðmundur Brynjólfsson