6 Því að ég, Drottinn, er ekki breyttur og þið ekki hættir að vera synir Jakobs. 7Allt frá dögum forfeðra ykkar hafið þið vikið frá lögum mínum, þið hélduð þau ekki. Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar, segir Drottinn hersveitanna.
En þið spyrjið: „Hvernig getum við snúið aftur?“ Getur maðurinn prettað Guð? Samt svíkið þið mig. 8 En þið spyrjið: „Með hverju höfum við svikið þig?“ Með tíundum og afgjöldum. 9 Bölvun hvílir á ykkur því að þið svíkið mig, þjóðin öll. 10 Færið tíundina alla í forðabúrið svo að matföng séu til í húsi mínu. Reynið mig með þessu, segir Drottinn hersveitanna, og sjáið hvort ég lýk ekki upp flóðgáttum himins og helli yfir ykkur óþrjótandi blessun. 11 Ég mun reka burt átvarginn fyrir ykkur svo að hann eyði ekki afrakstri jarðar og vínuppskeran bregðist ekki í landinu, segir Drottinn hersveitanna. 12 Þá munu allar aðrar þjóðir telja ykkur sæla því að þið eigið dýrindis land, segir Drottinn hersveitanna.

Dagur réttlætisins

13 Þið farið hörðum orðum um mig, segir Drottinn. Þið spyrjið: „Hvað höfum við sagt um þig?“ 14 Þið segið: „Það er til einskis að þjóna Guði. Hvaða ávinning höfum við af að hlýða boðum hans og ganga í sorgarklæðum frammi fyrir Drottni hersveitanna? 15 Við teljum hrokagikkina sæla, óguðlegum vegnar vel. Þeir freista Guðs en sleppa við hegningu.“