33 Og er þeir komu til þess staðar er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður, 34 gáfu þeir Jesú vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það en vildi ekki drekka.
35 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér, 36 sátu þar svo og gættu hans. 37 Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA. 38 Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.
39 Þeir sem fram hjá gengu hæddu Jesú, skóku höfuð sín 40 og sögðu: „Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér ef þú ert sonur Guðs og stíg niður af krossinum!“
41 Eins gerðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu: 42„Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum við trúa á hann. 43 Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: Ég er sonur Guðs?“
44 Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.

Dáinn

45 En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.[ 46 Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: „Elí, Elí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“
47 Nokkrir þeirra er þar stóðu heyrðu þetta og sögðu: „Hann kallar á Elía!“ 48 Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.
49 Hinir sögðu: „Sjáum til hvort Elía kemur að bjarga honum.“
50 En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.
51 Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, 52 grafir opnuðust og margir heilagir menn, sem látnir voru, risu upp. 53 Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.
54 Þegar hundraðshöfðinginn og þeir sem gættu Jesú með honum sáu landskjálftann og atburði þessa hræddust þeir mjög og sögðu: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“
55 Þar voru og margar konur sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum. 56 Meðal þeirra var María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs, og móðir Sebedeussona.