Gegn prestum

1 Prestar, takið þetta til ykkar: 2 Ef þið hlustið ekki og látið ykkur ekki umhugað um að halda nafn mitt í heiðri, segir Drottinn hersveitanna, sendi ég bölvunina yfir ykkur og sný blessun ykkar í bölvun. Já, ég sný henni í bölvun því að þið hafið ekki gætt þessa heils hugar. 3 Sjá, ég ógna uppskeru ykkar[ og eys ásjónur ykkar auri, saurnum frá hátíðum ykkar, og varpa ykkur á haugana frá þeim. 4 Þá skuluð þið játa að ég hef skipað ykkur þetta svo að sáttmáli minn við Leví fengi staðist, segir Drottinn hersveitanna. 5 Sáttmáli minn var honum líf og heill, hvort tveggja gaf ég honum og guðsótta að auki. Hann átti að óttast mig og sýna nafni mínu lotningu. 6 Sönn kenning var í munni hans og svik fundust ekki á vörum hans. Hann fylgdi mér í friði og heils hugar og sneri mörgum frá syndugu líferni. 7 Því að varir prestsins varðveita þekkingu og menn leita lögmálsfræðslu af munni hans því að hann er boðberi Drottins hersveitanna. 8 En þið hafið vikið af veginum og fellt marga með leiðsögn ykkar. Þið hafið spillt sáttmálanum við Leví, segir Drottinn hersveitanna. 9 Ég geri ykkur fyrirlitlega og niðurlægi ykkur frammi fyrir öllu fólkinu af því að þið fylgið ekki mínum vegum og eruð hlutdrægir þegar þið leiðbeinið.