Gott verk gerði hún

3 Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. 4 En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? 5 Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara[ og gefa fátækum.“ Og þeir atyrtu hana.
6 En Jesús sagði: „Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana? Gott verk gerði hún mér. 7 Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt. 8 Hún gerði það sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrir fram smurt líkama minn til greftrunar. 9 Sannlega segi ég ykkur: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“