Sá er mikill vill verða

35 Þá komu til Jesú Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“
36 Hann spurði þá: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“
37 Þeir svöruðu: „Veit okkur að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“
38 Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn sem ég skírist?“
39 Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“
Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka og þið munuð skírast þeirri skírn sem ég skírist. 40 En ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem það er fyrirbúið.“
41 Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. 42 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.
43 En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. 44 Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. 45 Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“