1 Sérhver æðsti prestur er tekinn úr flokki manna og settur í þágu manna til að þjóna frammi fyrir Guði og bera fram gáfur og fórnir fyrir syndir. 2 Hann getur verið mildur við fáfróða og vegvillta þar sem hann sjálfur er breyskur. 3 Og sökum þess á hann að bera fram syndafórn, eigi síður fyrir sjálfan sig en fyrir lýðinn. 4 Enginn tekur sér sjálfum þennan heiður, það er Guð sem kallar hann eins og Aron.
5 Þannig tók Kristur sér ekki sjálfur þá vegsemd að verða æðsti prestur heldur sagði Guð við hann:
Þú ert sonur minn,
í dag hef ég fætt þig.

6 Og á öðrum stað:
Þú ert prestur að eilífu
að hætti Melkísedeks.

7 Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. 8 Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. 9 Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, 10 af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

Gerist ekki sljó

11 Um þetta höfum við langt mál að tala og ykkur torskilið af því að athygli ykkar er orðin sljó. 12 Þó að þið tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þið þess enn á ný þörf að einhver kenni ykkur undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir ykkur að þið hafið þörf fyrir mjólk en ekki fasta fæðu. 13 En hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. 14 Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá sem jafnt og þétt hafa agað hugann til að greina gott frá illu.