„Börnin mín og barnabörnin munu geta heyrt mig deila fagnaðarerindinu með þeim.“

 

Nami varð klökk þegar hún heyrði sína eigin rödd fara með Markúsarguðspjall á nýju hljóðbókinni á máli pitjantjatjara-manna.

Þegar starfsmaður Biblíufélagsins, Louise Sherman, spilaði hljóðbókina fyrir Nami á símann sinn, sat hún hljóð á meðan Louise ók.

 

„Ég græt af gleði.“ — Nami.

„Hugtökin ,wiru’ (dásamlegt) og ,palya’ (gott) komu fram á varir hennar. Það var fyrst þegar ég stöðvaði bílinn að ég gerði mér það ljóst að Nami var að skæla,“ rifjar Louise upp, en hún er framkvæmdastjóri Hins ástralska biblíufélags á meðal innfæddra á afskekktum svæðum.

„Hún brosti og sagði: „Ég græt af einskærri hamingju. Jafnvel þegar ég verð löngu horfin héðan úr heimi, munu börn mín og barnabörn samt geta heyrt mig deila fagnaðarerindinu með þeim.’“

„Hún þurrkaði tárin af hvarmi sínum, brosti og sagði: ,Þetta er rikina!’ (Þetta er stórkostlegt!)“

„Margt fólk af Pitjantjatjara (Anangu)-ættbálkinum var frá sér numið þegar það heyrði raddir ættingja sinna á upptökunni,“ bætir Louise við, en nýlega tók hún þátt í herferð þar sem farið var með nýja biblíuappið um upprunaleg landsvæði frumbyggja í APY (Anangu Pitjantjatjara Yankunytjatjara-lendunum) í Suður-Ástralíu.

Þýðandi Biblíufélagsins og skipuleggjandi þess, David Barnett, varð fyrir uppbyggilegri lífsreynslu er hann heimsótti átta frumbyggjasvæði í austurhluta landsvæðis síns í Ernabella. (Annar hópur heimsótti 11 þjóðfélög vestur af Ernabella).

„Við vorum bara að hjálpa fólki að setja biblíuöppin inn í símana þeirra og einnig láta kirkjuleiðtoga og skólamenn fá þessa „boða“ sem eru litlir, svartir kassar með hátalara sem geta gengið fyrir sólarorku, en þeir hafa að geyma nýlegar upptökur af Nýja testamentinu,“ segir hann.

 

„Það var frábært að sjá hversu mikið það uppörvaði þá.“ —David Barnett.

„Við komum til Titjikala og sorgarbúðir stóðu yfir, en það er tímabil þegar fólk syrgir ástvin sem nýlega hefur fallið frá.

„Presturinn þarna hafði nýlega misst eiginkonu sína. Við gáfum honum einn af þessum boðum og hann var himinlifandi að fá Heilaga ritningu til uppörvunar á þeim tíma sem hann syrgði eiginkonu sína.

„Öll fjölskylda hans sat allt í kring. Ástvinirnir settu tækið í gang og hlustuðu á Matteusar-guðspjall og það var frábært að sjá hversu mikið það uppörvaði þá.“

David sagði að hann hefði verið minntur á það þegar biblíuappið hafði verið afhent í Adelaide hversu kröftugt það getur verið við hlustun, sem vegur upp á móti lestri á Orði Guðs.

„Þetta var í fyrsta skiptið sem fjöldi manna hafði heyrt Heilaga ritningu lesna á sínu eigin tungumáli og það rann upp fyrir þeim hversu mikilvægt þetta var, hversu þýðingarmikið þetta var fyrir fjölskyldur þeirra,“ segir hann.

„Ég hugsa að við á Vesturlöndum gleymum því oft, að mestan hluta sögu kirkjunnar hefur fólk ekki getað gengið að Ritningunni prentaðri. Um langt skeið hefur trúin komið með því að heyra en ekki endilega með því að lesa ritningarnar. Það er eitthvað öflugt við það að fá boðun Orðsins munnlega.

„Ég held að við ættum ekki að vanmeta þau áhrif sem þessi nýja upptaka gæti haft.“

David hefur tekið eftir því hvernig Biblían á hljóðbók hefur espað enn frekar upp áhuga hinna 30 til 40 þýðenda sem taka þátt í því að þýða Gamla testamentið yfir á þjóðtungu pitjantjara-manna.

„Að hluta til felst hlutverk mitt í því að leiða fram þýðendur fyrir þá til að vinna úr — þetta eru enskar þýðingar sem auðveldlega má laga að pitjantjara-málinu — og um þessar mundir er svo sterk krafa um að fólk eignist Biblíuna.

„Margt fólk vill fá að vera með og ég á í vandræðum með að halda í við þýðendurna — það eru góð vandræði.“

Röskur helmingur frumbyggja og eyjaskeggja Torres Strait eru kristinnar trúar (54 af hundraði, samkvæmt hagtölum frá árinu 2016), en flestir þeirra hafa aldrei heyrt Biblíuna lesna á þjóðtungu sinni. Þar sem Nýja testamentið var nýlega afhent á kunwinjku-máli í Arnhemlandi, hafa nú 17 samfélög frumbyggja fengið Nýja testamentið á sínu eigin tungumáli. Samt sem áður er Biblían í heild aðeins til á einu tungumáli frumbyggja, kreólsku — sem þýðir að þúsundir kristinna manna missa af Orði Guðs.

Brýnt er að veita ríflega 20 biblíuþýðingum yfir á mál frumbyggja fjárhagslegan styrk, svo hægt verði að gera systkinum okkar kleift að deila boðskap Biblíunnar með sínum hætti, í gegnum listir, frásagnir og daglegt líf.

 

Gerstu styrktaraðili

Getur þú lagt lið við að styrkja verkefni stuðningsliðs frumbyggjahópa á afskekktum svæðum? Auk þess að gefa út og dreifa Biblíum og hljóðbókum, stuðlar hópurinn að þýðingum Biblíunnar á fleiri tungumál og undirbýr sérstök biblíuverkefni.

 


Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur þýddi