Biblíulestur 29. mars – Sak 14.12-21

2019-02-04T21:18:36+00:00Föstudagur 29. mars 2019|

12 Yfir allar þjóðir sem herjuðu á Jerúsalem mun Drottinn senda plágu: Hann mun láta hold þeirra rotna meðan þeir standa enn í fæturna, augu þeirra lætur hann morkna í augnatóttunum og tunguna visna í munni þeirra. 13 Á þeim degi mun skelfingin hvolfast yfir þá frá Drottni, þeir munu þrífa hver í annars hönd og hver höndin verður uppi á móti annarri. 14 Jafnvel Júda mun berjast með gegn Jerúsalem. Þá verður auði grannþjóðanna safnað saman, ókjörum af gulli, silfri og klæðum. 15 Og sama plágan mun einnig ganga yfir hesta, múldýr, úlfalda, asna og allar skepnur í þeim búðum.
16 En allir sem eftir lifa af öllum þjóðum sem herjað hafa á Jerúsalem munu árlega fara þangað til að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, og til að halda laufskálahátíðina. 17 En engin regnskúr mun koma yfir þá menn af kynkvíslum jarðarinnar sem ekki fara upp til Jerúsalem til að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar. 18 En fari kynkvísl Egyptalands ekki þangað mun sama plágan þó ekki ganga yfir hana og Drottinn lætur koma yfir þær þjóðir sem ekki fara þangað til að halda laufskálahátíðina. 19 Þetta skal verða hegning Egypta og allra þeirra þjóða sem ekki fara þangað til að halda laufskálahátíðina.
20 Á þeim degi verður letrað á bjöllur hestanna: „Helgaður Drottni“ og katlarnir í húsi Drottins munu verða jafnstórir og fórnarskálarnar fyrir altarinu. 21 Og sérhver ketill í Jerúsalem og Júda verður helgaður Drottni allsherjar og allir þeir sem færa fórnir munu koma og taka einhvern þeirra til að sjóða í. Á þeim degi verða engir mangarar[ framar í húsi Drottins allsherjar.

Fara efst