7 Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. 8 Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. 10 Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls.[ 11 En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.
12 Ég rita ykkur, börnin mín, af því að Guð hefur fyrirgefið ykkur syndir ykkar vegna Jesú Krists. 13 Ég rita ykkur, foreldrar,[ af því að þið þekkið hann sem er frá upphafi. Ég rita ykkur, unglingar, af því að þið hafið sigrað hinn vonda.
14 Ég hef ritað ykkur, börn, af því að þið þekkið föðurinn. Ég hef ritað ykkur, foreldrar,[ af því að þið þekkið hann sem er frá upphafi. Ég hef ritað ykkur, unglingar, af því að þið eruð styrkir og orð Guðs býr í ykkur og þið hafið sigrað hinn vonda.
15 Elskið hvorki heiminn né það sem í heiminum er. Sá sem elskar heiminn elskar ekki föðurinn. 16 Því að allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna er ekki frá föðurnum heldur frá heiminum. 17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.