1. kafli

Orð lífsins

1 Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. 2 Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. 3 Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur einnig, til þess að þið getið líka haft samfélag við okkur. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. 4 Þetta skrifum við til þess að fögnuður vor[ verði fullkominn.

Líf í ljósi Guðs

5 Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ 6 Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. 7 En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.
8 Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. 9 Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. 10Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.

2. kafli

Fyrirgefning syndanna, nýtt líf

1 Börnin mín! Þetta skrifa ég ykkur til þess að þið skulið ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum við málsvara hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. 2 Hann er friðþæging fyrir syndir okkar og ekki einungis fyrir syndir okkar heldur líka fyrir syndir alls heimsins.
3 Þá vitum við að við þekkjum hann ef við höldum boðorð Guðs. 4 Sá sem segir: „Ég þekki hann,“ og heldur ekki boðorð hans er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. 5 En hver sem varðveitir orð Guðs, hann elskar sannarlega Guð á fullkominn hátt. Þannig þekkjum við að við erum í honum. 6 Þeim sem segist vera í honum ber sjálfum að breyta eins og Jesús Kristur breytti.