6Þjóðum hef ég tortímt
og steypt varðturnum þeirra.
Stræti þeirra hef ég eytt af fólki
svo að þar er enginn á ferð,
borgir þeirra eru í rúst, mannlausar,
og þar búa engir framar.
7Og ég vænti að þú óttaðist mig,
tækir áminningu minni,
að ekki dyldist augum hennar
refsingin sem ég kallaði yfir hana.
En því meir hafa þeir kappkostað
að snúa verkum sínum til ills.
8Bíðið, segir Drottinn,
bíðið dagsins þegar ég kem sem ákærandi.
Því að ég hef ákveðið að safna þjóðunum saman
og stefna saman konungsríkjunum
til að ausa yfir þau reiði minni,
allri minni logandi heift.
Já, fyrir eldi bræði minnar
mun öll jörðin eyðast.
Guð snýr við högum þjóðanna
9Þá mun ég gefa þjóðunum
nýjar varir og hreinar
svo að þær geti ákallað nafn Drottins
og þjónað honum einhuga.
10Dreifðir þjónar mínir
handan fljóta Eþíópíu munu koma
og færa mér fórnargjafir.
11Á þeim degi þarftu ekki að bera kinnroða
vegna illverka þinna
þegar þú hafnaðir mér
því að þá mun ég fjarlægja
þá sem kætast og hreykja sér af þér
og þú munt ekki framar ofmetnast
á mínu heilaga fjalli.
12En meðal þín mun ég skilja eftir
fátæka og hógværa þjóð
og hún mun leita hælis
í nafni Drottins.
13Þeir sem eftir verða af Ísrael
munu hvorki viðhafa rangindi né ósannindi.
Svikul tunga verður ekki í munni þeirra.
Þeir munu komast á beit og hvílast
og enginn verður til að styggja þá.