16 Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. 17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:
18Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
19og kunngjöra náðarár Drottins.
20 Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. 21 Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“
22 Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans og sögðu: „Er hann ekki sonur Jósefs?“
23 En Jesús sagði við fólkið: „Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: Læknir, lækna sjálfan þig! Vér höfum heyrt um allt sem gerst hefur í Kapernaúm. Ger nú hið sama hér í ættborg þinni.“ 24 Enn sagði Jesús: „Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. 25 En satt segi ég yður að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði og mikið hungur í öllu landinu 26 og þó var Elía til engrar þeirra sendur heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi. 27 Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns og enginn þeirra var hreinsaður heldur aðeins Naaman Sýrlendingur.“
28 Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði er þeir heyrðu þetta, 29 spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. 30 En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.