Kærleikur er það hugtak, sem leitað er mest að í Netbiblíu Hins danska biblíufélags. „Ljós“ og „hjónaband“ eru í næstu sætum.

„Kærleikur“ er það hugtak, sem leitað er mest að á meðal þeirra sem nota Netbiblíu Hins danska biblíufélags. „Ljós“ og „hjónaband“ eru í næstu sætum. Þetta sýna nýjar tölur fyrir síðari helming ársins 2018, Í öðru sæti finnum við „ljós“ — ef til vill var það hauströkkrið sem veitti lesendunum innblástur til þess að komast að því, hvað sagt er í Biblíunni um ljós. „Hjónabandið“ hreppir þriðja sætið og leitarorðin „gleði“ og „friður“ sigla í kjölfarið.

Í hvert sinn sem leitað er í Netbiblíunni má fá lista yfir hlekki að öllum þeim ritningarstöðum, sem orðið kemur fyrir, annaðhvort beinlínis eða í afleiddri mynd. Hægt er að velja að raða leitarniðurstöðunum eftir mikilvægi eða röð í Ritningunni. Þaðan getur maður smellt áfram að einstökum ritningarstöðum.

Þeir lesendur, sem leitað hafa að „kærleik“ fá hvorki meira né minna en 304 leitarniðurstöður. Vinstra megin á síðunni má sjá snöggt yfirlit yfir fjölda atvika samkvæmt Gamla og Nýja testamentinu og undir því birtist hversu oft orðið kemur fyrir í einstökum ritum Biblíunnar, t.d. í Davíðssálmunum eða Jóhannesarguðspjalli.

Við „kærleik“ hafa flestir smellt áfram að 3. kapítula Jóhannesarguðspjalls, sem hafa að geyma orð Jesú um kærleik Guðs — þau orð sem mæta okkur í 16. versi og nefnast „Litla Biblían“:

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. 

 

Samantekinn topp tíu listi lítur svona út:

 1. Kærleikur

Mest lesni kapítulinn um kærleikinn: Jóhannesarguðspjall, 3. kapítuli.

 1. Ljós

Mest lesni kapítulinn um ljósið: Jóhannesarguðspjall, 1. kapítuli.

 1. Hjónaband

Mest lesni kapítulinn um hjónabandið: Fyrra Korintubréf, 7. kapítuli.

 1. Gleði

Mest lesni kapítulinn um gleðina: Fimmta Mósebók, 12. kapítuli.

 1. Friður

Mest lesni kapítulinn um friðinn: Jóhannesarguðspjall, 14. kapítuli.

 1. Fyrirgefning

Mest lesni kapítulinn um fyrirgefninguna: Spádómsbók Jesaja, 55. kapítuli.

 1. Von

Mest lesni kapítulinn um vonina: Hebreabréfið, 6. kapítuli.

 1. Náð

Mest lesni kapítulinn um náðina: Rómverjabréfið, 11. kapítuli.

 1. Synd

Mest lesni kapítulinn um syndina: Fyrsta Mósebók, 4. kapítuli.

 1. Gæfa

Mest lesni kapítulinn um gæfuna: Rómverjabréfið, 4. kapítuli.

 • – – – –

Þessa grein tók saman Thomas Godsk Larsen fyrir Hið danska biblíufélag og félagi okkar Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur sneri henni yfir á íslensku.