16Sá maður sem villist af vegi viskunnar
mun brátt hvílast í samneyti framliðinna.
17Öreigi verður sá sem sólginn er í skemmtanir,
sá sem sólginn er í vín og olíu verður ekki ríkur.
18Hinn rangláti er lausnargjald hins réttláta
og svikarinn kemur í stað hinna vammlausu.
19Betra er að búa í eyðimörk
en með þrasgjarnri og geðillri konu.
20Dýrmætur fjársjóður og olía er í heimkynnum hins vitra
en heimskur maður sólundar því.
21Sá sem ástundar réttlæti og kærleika
öðlast líf, velgengni og heiður.
22 Vitur maður vann borg kappanna
og reif niður vígið sem hún treysti á.
23 Sá sem gætir munns síns og tungu
forðar sjálfum sér frá nauðum.
24 Sá sem er hrokafullur og dramblátur kallast spottari,
hann lætur stýrast af skefjalausum hroka.
25 Óskir letingjans verða honum að falli,
hendur hans vilja ekki vinna,
26 langanir fylla hug hans daglangt
en hinn réttláti gefur og er ekki naumur.
27 Sláturfórn hins rangláta er Drottni andstyggð,
einkum sé hún færð af illum ásetningi.
28 Falsvottur mun tortímast
en sá sem hlustar grannt er vitnisbær.
29 Illmennið setur upp þóttafullan svip
en hinn vammlausi hyggur að háttum sínum.
30 Engin viska, engin skynsemi,
engin ráð eru til gegn Drottni.
31 Hesturinn er búinn til orrustudagsins
en sigurinn er í hendi Drottins.