Jesús færður Drottni

22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, 23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ 24 og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“.

Símeon

25 Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum 26 og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. 27 Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins 28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:
29 Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara
eins og þú hefur heitið mér
30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,
32 ljós til opinberunar heiðingjum
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.

33 Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. 34 En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn.
35 Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“

Anna

36 Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hún hafði lifað sjö ár með manni sínum þegar hann dó 37 og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögurra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. 38 Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.
39 Og er þau höfðu lokið öllu, sem lögmál Drottins bauð, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. 40En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.